sveita karamell

Súrdeigsbrauð

Súrdeigsbrauðin okkar eru allt annað en súr. Í þau notum við sérstaka hveitiblöndu, vatn og salt. Ekkert annað. En við ættum kannski að nefna það að baki þeim liggja þrotlausar rannsóknir, tilraunir til að ná fram sem bestum árangri. Við ættum líka að nefna hvað súrdeigsbrauðin okkar ilma vel þegar þau koma úr ofninum og hversu mjúk og gómsæt þau eru undir stökkri skorpunni. Við gætum líka nefnt að við önnum ekki alltaf eftirspurn. Brauðin staldra ekki lengi við í hillunum hjá okkur sem að sumu leyti er synd því þau fegra umhverfið með hrjúfri skorpunni sem skartar mjúkum litablæbrigðum.

Við höfum lagt mikla vinnu í að komast að því hvernig brauð voru bökuð fyrr á öldum. Við reynum að skilja hvernig brauðgerð hefur þróast og hvers vegna aðferðir, uppskriftir og hveititegundir breytast. Síðan höfum við velt því fyrir okkur hvernig megi þróa þessa hluti áfram og færa inn í nútímann á sem heilbrigðastan hátt.

Að baka gott brauð, bragðgott brauð með sál eins og sagt er, krefst mikillar vinnu og þekkingar á handverkinu. Það hefur tekið langan tíma að þróa súrdeigsbrauðið og þeirri vinnu mun aldrei ljúka. Við höldum áfram að prófa okkur áfram með mismunandi hveititegundir og  við erum alltaf að leita að nýjum korntegundum og nýjum aðferðum.

Það kemur mörgum á óvart að hveiti, salt og vatn er allt og sumt sem þarf í gott brauð, það hljómar ekki svo ýkja flókið en smáatriðin skipta máli. Það þarf að vita hvenær á að láta brauðið hefast, vita kjörhitastigið fyrir bæði súrdeigsgerlana og sjálft deigið, hversu mikið og hvenær á að hnoða það og þar fram eftir götunum. Handverkið byggir á þekkingu og forvitnin rekur okkur áfram til að þróa stöðugt nýjar útgáfur.

Rannsóknir sýna að uppáhalds lykt margra er ýmist af nýbökuðu brauði eða nýsleginni grasflöt. Til að komast að því í hvorn flokkinn þið fallið er trúlegast auðveldara (fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins) að líta við í bakaríinu en að bíða eftir fyrsta slætti að sumri.

Flokkur: